logo
  • Samvera -
  • Samvinna -
  • Samkennd

Stefnur og áætlanir

Lágafellskóli vinnur eftir hugmyndafræði sem kennd er við uppeldi til ábyrgðar en frumkvöðull þessarar nálgunar er Diane Gossen sem hefur starfstöð í Kanada og víða.

Hugmyndafræðin miðar að því að ýta undir ábyrgð og sjálfstjórn barna og unglinga og ýta undir að þau læri sjálfstjórn og þekkingu á eigin tilfinningum. Byggt er á því að einstaklingurinn læri að taka siðferðilega ábyrgð á eigin hegðun og taki ákvarðanir út frá löngun fremur en skömm eða sektarkennd. Ýmsir þættir eru notaðir til að hjálpa börnunum við að skoða sig og sína hegðun. Þau læra að skoða sig út frá spurningum eins og  hver er ég, hvað vil ég vera og hvað þarf ég að gera til að ná takmarki mínu?

Í skólastarfinu er áhersla á skýrar reglur um það hvað er óásættanleg hegðun. Skýrar reglur eru mikilvægar til að einstaklingar megi upplifa öryggi og traust. Barninu eru sköpuð tækifæri til að læra af mistökum sínum og því hjálpað og kennt að finna leiðir til að bæta hegðun sína og þá um leið að byggja upp sjálfstraust sitt.

Geðlæknirinn William Glasser hefur þróað nálgun sem hann útskýrir með þarfahringnum. Glasser telur að orsök vanlíðunar og slæmrar hegðunar sé að finna í því að einstaklingurinn nær ekki að uppfylla grunnþarfir sínar á eðlilegan máta. Hann segir að við þurfum að uppfylla fimm meðfæddar þarfir okkar til að vera andlega heil og hamingjusöm. 

Grunnþarfirnar eru:   Grunnþarfir

  1. Ást og umhyggja
  2. Áhrifavald og stjórn
  3. Frelsi og sjálfstæði
  4. Gleði og ánægja
  5. Öryggi og lífsafkoma
Kenningar Diane Gossen ganga út á að kenna börnunum að bera ábyrgð á hegðun sinni og að þau læri sjálfstjórn. Þeim er kennt að læra af mistökum sínum og að mistökin séu leið til að læra af og taka framförum í þroska.

,,Uppbygging sjálfsaga byggist á því að ýta undir sjálfsþekkingu“.

Sköpuð eru skilyrði til að barnið geti lagfært mistök sín, snúið aftur til hópsins og um leið vaxið og dafnað við hverja raun“.

Við leggjum áherslu á að börnin velti fyrir sér spurningunni: Hvernig manneskja vil  ÉG vera? Fremur en að hugsa: Hvað fæ ég fyrir ef ég geri svona eða hinsegin?

Mikilvægt er að hver og einn finni til ábyrgðar á hegðun sinni og sjái tilgang í því að koma vel fram, hvort sem einhver sér til eða ekki. Stefna byggir á innri umbun, einstaklingurinn finnur til innri gleði við að leggja sig fram. 

Uppeldi á ekki að vera hlýðniþjálfun, öllu heldur er áhersla á að hafa sterka forystu, virkja aðra með umræðu, samstarfi og lýðræðislegum vinnubrögðum.

Börnin læra að stjórna tilfinningum sínum. Ef eitthvað bregður út af eru málin rædd.

Þarfahringurinn er notaður sem grunnur að lausn mála fremur en reglur og viðurlög.

Sjö venjur í samskiptum

Jafnréttisáætlun Lágafellsskóla

Markmið jafnréttisstefnu Lágafellsskóla eru þau, að stuðla að því að allir eigi jafnan rétt og beri jafnar skyldur og að einstaklingum sé ekki mismunað.

Sjá    jafnréttisáætlun skólans.

Viðbragðsáætlun almannavarna fyrir Lágafellsskóla er að finna hér á heimasíðu skólans.

  • Markmið viðbragðsáætlana skóla eru að tryggja skipulögð og samræmd viðbrögð allra skólastofnana sem og starfsmanna þeirra þegar til inflúensufaraldurs kemur. Stuðst er við lög um almannavarnir nr. 82/2008 og lög um sóttvarnir nr. 19/1997.

Rýmingaræfingar eru haldnar öðru hvoru bæði undirbúnar og óundirbúnar.


Sjá    rýmingaráætlun skólans

Lágafellsskóli 12/05/2014

Áfallaáætlun Lágafellsskóla

Skilgreining á áfalli:
Hlutverk áfallateymis er m.a. að hafa verkstjórn við válega atburði, útbúa viðbragðsáætlun og kynna fyrir starfsfólki, meta aðstæður, standa að fræðslu um viðbrögð barna og fullorðinna við áföllum o.s.frv. Áfallateymi býr yfir viðbragðsáætlun sem farið er eftir við stór áföll.

Í áfallateymi Lágafellsskóla eiga sæti:
Skólastjóri, staðgengill skólastjóra, hjúkrunarfræðingur, námsráðgjafi og djákni.
Stuðningsaðilar áfallateymis eru sálfræðingur, læknir, lögregla, kennslufulltrúi og skólaritari.

Áföll geta verið:

  • Skyndileg alvarleg veikindi.
  • Skilnaður/missir.
  • Alvarleg slys/ofbeldi nemenda eða starfsmanna.
  • Andlát nemenda, foreldra eða systkina nemenda.
  • Andlát starfsmanns, maka eða barns starfsmanns.
  • Náttúruhamfarir hvers konar.
  • Óvæntir atburðir

Mikilvægt er að aðstandendur tilkynni öll áföll sem fyrst til umsjónarkennara, skólastjóra eða annarra í áfallateymi. Sá sem fær upplýsingarnar fyrst komi þeim til skólastjóra.

Skólastjóri lætur námsráðgjafa og hjúkrunarfræðing vita um áföll. Þessir aðilar meta hvort kalla skal áfallateymið saman.

Mörg áföll eru þess eðlis að óþarfi er að kalla áfallateymið saman á fund. Þau áföll geta engu að síður haft áhrif á einstaklinginn (hér er átt við t.d. skilnað foreldra, missi ömmu/afa eða annarra ættingja, ástarsorg o.fl.). Áfallateymið hefur þess vegna safnað saman fræðsluefni sem nýtist þeim sem hlut eiga að máli. Einnig geta þeir sem hlut eiga að máli leitað stuðnings hjá áfallateymi.

Áfallateymi er kallað saman við eftirfarandi áföll:

  • Alvarleg slys nemanda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks
  • Alvarleg veikindi nemenda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks
  • Andlát nemenda, aðstandenda þeirra, starfsfólks, maka eða barns starfsfólks
  • Langvinna sjúkdóma nemenda, aðstandenda þeirra eða starfsfólks

Ætið skal gæta fyllsta trúnaðar gagnvart skjólstæðingum.

Í upphafi hvers skólaárs fundar áfallateymið og fer yfir starfsreglur. Teymið hittist einnig í janúar og í lok skólaárs.

Ef alvarlegt slys eða áfall á sér stað í sumarleyfi eða öðru fríi er nauðsynlegt að kalla áfallateymi saman áður en nemendur og starfsfólk mæta aftur í skólann.

Viðbragðsáætlun:
Hér á eftir fara framkvæmdaáætlanir um hvernig bregðast skuli við mismunandi áföllum sem snerta skólasamfélagið. Ef áfall er metið þess eðlis að kalla verði áfallateymi saman er þessari framkvæmdaáætlun fylgt eftir. Alltaf ber þó að hafa í huga að hvert mál er einstakt og þarf meðhöndlun samkvæmt því. Áætlun ætti að einfalda skipulagningu og koma í veg fyrir að mikilvægir þættir fari framhjá teyminu.

Á grænni grein

Verkefnið „Skólar á grænni grein“ eða Grænfánaverkefnið er stærsta umhverfisverkefni í heimi og rekið af Landvernd á íslandi. Markmið verkefnisins er að auka umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og að styrkja umhverfisstefnur skóla. Skólar sem hafa hlotið þessa viðurkenningu flagga Grænfánanum við skólann sinn.

Lágafellsskóli ásamt útibúi skólans Höfðabergi skráði sig í til leiks í Grænfánaverkefnið haustið 2018 og var unnið ötullega að því að ná því markmiði. Til þess uppfylla þau markmið þurfti að stíga „skrefin sjö“, verkefni sem stuðla m.a. að því að efla þekkingu skólasamfélagsins í umhverfismálum.

Þeim áfanga náði skólinn vorið 2020 og voru fánar dregnir að húni bæði í Lágafellsskóla og á Höfðabergi og þar með var skólinn orðinn Grænfánaskóli. Sú viðurkenning er endurnýjuð á tveggja ára fresti, haldi skólinn áfram góðu starfi í umhverfismálum.

Umhverfissáttmáli Lágafellsskóla

 Þetta er allt í okkar höndum


https://landvernd.is/graenfaninn/

Tákn Grænfánans

Græni liturinn: Græni liturinn minnir á græna gróðurinn sem er forsenda alls lífs á jörðinni. Í plöntum eru grænukorn sem vinna orku úr vatni, lofti og steinefnum með orku sólar. Allar aðrar lífverur eru háðar gróðrinum. Það er því mikilvægt að vera minntur á græna litinn.

Hvíti hringurinn: Hvíti hringurinn minnir á sólina og jörðina. Jörðin er heimili okkar og allra annarra lífvera sem vitað er um. Það er bara til ein jörð. Annars staðar getum við ekki búið. Og ef ekki væri fyrir sólina væri hér ekkert líf.

Bláa og hvíta bókin: Blái og hvíti liturinn í bókinni minna á loft og vatn, hreint loft og vatn sem eru líka lífsnauðsynjar sem við verðum að fara vel með. Bókin minnir á að við vitum ekki alltaf allt. Við þurfum stundum að læra eitthvað og þá getur verið ágætt að lesa um það eða skoða af því myndir. Bláa blaðsíðan vinstra megin getur einnig táknað fortíðina og sú hvíta, hægra megin, framtíðina. Við getum öll haft áhrif á framtíðina og ákveðið í sameiningu að skrifa eitthvað fallegt á hvítu síðuna fyrir jörðina, hvert annað og okkur sjálf.

Tréð og maðurinn:Tréð og maðurinn eru ein heild sem minnir okkur á að maðurinn er hluti af náttúrunni og verður að fara vel með hana. Ef við virðum náttúruna og förum vel með hana erum við líka að fara vel með fólk. Tréð minnir svo auðvitað líka á gróðurinn.


Flöggun Grænfánans


 


 

 

 

 


 

 

 

 


 

 

 

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira