Skólasafn Lágafellsskóla
- Ársskýrsla Fræðaseturs 2023-2024
- Ársskýrsla Fræðaseturs 2022-2023
- Ársskýrsla Fræðaseturs 2021-2022
- Ársskýrsla Fræðaseturs 2020-2021
- Ársskýrsla Fræðaseturs 2019-2020
- Ársskýrsla Fræðaseturs 2018-2019
- Ársskýrsla Fræðaseturs 2017-2018
Skólasafn Lágafellsskóla heitir Fræðasetur og er staðsett miðsvæðis á fyrstu hæð skólans. Safnið er um um 300 m² að stærð og er bjart og aðlaðandi og vel búið húsgögnum. Skólasafnið leitast við að þjóna öllum nemendum og kennurum skólans.
Góð vinnuaðstaða er á Fræðasetri, þar sem nemendur hafa aðgang að ljósritunarvél og tölvum. Þar eru tvær borðtölvur sem ætlaðar eru til verkefnavinnu og upplýsingaleitar og vinnuaðstaða er fyrir rúmlega 12 nemendur, auk sófa og leskróks. Einnig geta nemendur komið á skólasafnið til að spila eða lesa sér til skemmtunar.
Hlutverk
Skólasafnið er upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Samkvæmt lögum um grunnskóla eiga skólasöfn að vera eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu. Skólasafnið styður nám og kennslu i skólanum og þjónustar nemendur og kennara með útláni bóka, aðstoð við upplýsingaleit, jafnframt því að hvetja nemendur til lesturs, sér til gagns og gamans.
Mikil áhersla er lögð á glæða áhuga nemenda á lestri og bókmenntum, útvega lesefni við hæfi og velja bækur sem vekja áhuga nemenda. Að njóta góðra bóka og lesa sér til fróðleiks og ánægju skiptir gríðarlega miklu máli í nútímasamfélagi. Lifandi, skemmtilegt og aðlaðandi bókasafn eflir lestraráhuga nemenda og kveikir áhuga þeirra á bókum.
Markmið skólasafnsins er m.a. að:
· Aðstoða nemendur og starfsfólk við upplýsingaöflun.
· Að vekja áhuga nemenda á bókmenntum og lestri góðra bóka.
· Að leiðbeina um notkun safnkosts.
· Að örva lestur fagurbókmennta og fræðirita.
Opnunartími
Fræðasetrið er opið alla daga frá kl. 8.00 - 14.00 en lokað á kaffi- og matartímum milli kl. 9:40-9:55 og 11:40-12:00.
Safnkostur
Á Fræðasetri er að finna úrval fræði- og skáldrita til útlána fyrir nemendur og starfsfólk skólans. Einnig er þar að finna tímarit, myndefni, hljóðbækur, bekkjarsett af skáldsögum, spil og ýmiss konar kennslugögn.
Gögnum safnsins er raðað eftir flokkunarkerfi Dewey, skáldritum eftir höfundum og fræðiritum eftir efni. Öll gögn safnsins eru skráð í Ölmu sem er nýtt bókasafnskerfi og samskrá íslenskra bókasafna. Upplýsingar um safnkost safnsins eru aðgengilegar á Leitir.is og með sérstöku aðgangsorði geta nemendur og foreldrar skráð sig inn í Leitir.is (mínar síður) til að sjá útlánalista sína eða útlánasögu. Til að komast inn í kerfið þarf notandinn að eiga gilt bókasafnsskírteini og skrá notendanafn sitt (kennitölu) og leyniorð.
Útlán og skil
Á safninu geta nemendur og starfsfólk skólans fengið lánaðar bækur og önnur gögn. Safnið sér auk þess um útlán námsbóka til nemenda í unglingadeild og útlán spjaldtölva og kennsluleiðbeininga til kennara.
Útlánstími skáldsagna, fræðibóka og tímarita eru tvær vikur en sérlega þykkra bóka 30 dagar. Námsbækur í unglingadeild eru lánaðar nemendum í annarláni og gögn til kennara í vetrarláni eða eftir samkomulagi.
Flestar bækur safnsins eru lánaðar heim en sérstaklega merktar handbækur, orðabækur og önnur uppsláttarrit eru eingöngu lánaðar til kennara eða eru bara til afnota á safninu og ekki lánaðar út úr skólanum. Öll gögn sem farið er með út af safninu þarf að skrá í útlán en á safninu er sjálfsafgreiðslukerfi og skrá nemendur sjálfir þau gögn sem þeir fá að láni. Ef nemandi týnir eða skemmir bók þarf hann að bæta hana með nýju eintaki af sömu bók eða kaupa aðra bók í staðinn ef hin týnda er ófáanleg í búðum.
Viðburðir
Ýmsir viðburðir, klúbbar og uppákomur tengjast safninu. Sem dæmi má nefna Bókaorm vikunnar, Yndislestur æsku minnar, ýmsir bókaklúbbar, rithöfundakynningar, Íslensku barnabókaverðlaunin, Alþjóðlegi bangsadagurinn, Dagur barnabókarinnar og Alþjóðlegi bókasafnsdagurinn, svo eitthvað sé nefnt. Skólasafnið tekur einnig þátt í sameiginlegu lestrarátaki allra árganga skólans.
Umgengni og reglur á bókasafninu
· Ganga hljóðlega um og trufla ekki aðra.
· Skila bókum í skilakassann.
· Fara vel með bækur og önnur safngögn.
· Ganga vel um, setja borð og stóla á sinn stað.
· Öll útlán þurfa að vera skráð.
· Matur og drykkur er ekki leyfður á safninu.
· Nota tölvurnar bara í verkefnavinnu og upplýsingaleit.
· Virða útlánstímann - útlánstími bóka er tvær vikur en 30 dagar fyrir þykkar bækur.
Skólasafnið er með síðu á Facebook sem hugsuð er fyrir nemendur sem hafa aldur til og foreldra og starfsmenn. Þar eru uppákomur og viðburðir safnsins auglýstir og hægt að fylgjast með því sem fram fer á safninu.
Starfsmenn
Starfsmaður Fræðaseturs er Kristín Rögnvaldsdóttir bókasafns- og upplýsingafræðingur.