logo
  • Samvera -
  • Samvinna -
  • Samkennd

Lestur

    Markmið lestrarstefnunnar

Lágafellsskóli hefur sett sér skýra og hnitmiða lestrarstefnu til að nemendur skólans nái marktækum árangri í lestri. Stefnan snýr fyrst og fremst að því að sameina vinnuskipulag, verkferla og að gera lestrarkennsluna betri  og skilvirkari. 

Í lestrarstefnunni kemur skýrt fram hvaða matstæki eru lögð fyrir í hverjum árgangi fyrir sig og á hvaða tíma. Markmiðið er að halda markvissa skrá utan um allar niðurstöður til að geta fylgst með framförum nemenda í lestri. 

Með markvissum skráningum og verkferlum verður hægt að grípa fyrr til snemmtækrar íhlutunar og setja af stað úrræði og aðstoð fyrir þá nemendur sem ekki ná  viðmiðum á matstækjum skólans. Með snemmtækri íhlutun er hægt að aðstoða og efla nemendur á fyrstu stigum í læsisnámi og koma í veg fyrir mikla námserfiðleika og neikvæða upplifun af skólagöngu seinna meir.

 

Markmið lestrarstefnunnar er að allir nemendur nái eins góðum árangri og þeir hafa forsendur til í lestri og að lestrarkennslan verði öllum nemendum gott veganesti þegar þeir ljúka skólagöngu sinni í Lágafellsskóla.

Lestarstefna Lágafellsskóla er endurskoðuð árlega. 



Samstarf heimilis og skóla

Hlutverk Lágafellsskóla - aðhald og eftirfylgni

Í Lágafellsskóla er góð eftirfylgni við lestur nemenda. Í 1. - 7. bekk fá nemendur reglulega endurgjöf á heimalestur (límmiða, stimplar eða kvittun kennara). Nemendur lesa upphátt fyrir bekkjarkennara allt að þrisvar sinnum í viku en daglega í hljóði í lestrarstund.

Í efri bekkjardeildunum lesa nemendur ýmist upphátt eða í hljóði eins og kennari ákveður og nýta lestrarstundirnar í fjölbreytt lestrarverkefni. Nemendur halda sjálfir skrá utan um sinn lestur (stílabók í formi lestrardagbókar) en kennarinn hefur yfirumsjón og veitir gott aðhald. 

Einu sinni í mánuði er ástundun heimalestrar og orðavinnu nemenda í  1. – 7. bekk skráð á hæfnikort þeirra í Mentor.  Á sama hátt er lestrarástundum nemenda í 8. -10. bekk skráð í Mentor eftir lestrardagbókum þeirra.

 

Hlutverk foreldra - heimalestur

Börn læra að lesa með því að æfa sig í að lesa. Því skiptir þjálfunarþátturinn heima fyrir mjög miklu máli. Hlutverk foreldra/forráðamanna í lestrarnámi barna er fyrst og fremst að fylgja eftir heimalestri barna sinna. 

Mikilvægt er að börn þjálfi markvisst lestur heima og fái til þess gott næði. Markmiðið er að auka leshraða, lesskilning, orðaforða og málskilning. Foreldrar eru hvattir til að ræða innihald textans við börnin og útskýra erfið orð og leiðrétta/endurtaka þegar orðin eru rangt lesin. 

 Orðavinna er einnig mikilvægur þáttur í lestarnámi barnsins en hún er hugsuð þannig að foreldrar/forráðamenn lesa upp að minnsta kosti fimm orð úr þeim texta sem barnið hefur lesið þann daginn. Barnið skrifar orðin niður, finnur þau svo í textanum og fer yfir hvort stafsetning þeirra sé rétt. Orðavinna er hluti af lesfimi því með því að skrifa ólík orð á hverjum degi, eykst orðaforði barnsins og það öðlast færni til að skrifa þau rétt. Orðavinna getur verið með ýmsum hætti eftir því sem hentar hverjum og einum. Hún þróast frá einstökum orðum yfir í að nemandinn skrifar niður málsgreinar og málfræði. Því er mikilvægt að lestur og orðavinna haldist í hendur til að sem bestur árangur náist.

Það er einnig  hluti af lestarnámi barnsins að lesið sé fyrir það. Foreldrar ættu því  að lesa áfram fyrir börnin sín þó þau séu orðin læs. Lestrarnám barna á að vera fjölskylduverkefni sem foreldrar og forráðamenn sinna í samstarfi við skólann.

Ef heimalestri er ekki sinnt

Sinni forráðamenn/foreldrar ekki heimalestri eru viðeigandi athugasemdir skráðar af kennara í  Mentor. Telji skráningar í Mentor vegna heimalesturs þegar nemandi fær hæfnieinkunnina þarfnast þjálfunar eða hæfni ekki náð skal kennari hafa samband við foreldra og ræða stöðuna.  Verði ekki breyting til batnaðar í kjölfar samtalsins vísar kennari málinu til deildarstjóra sem boðar foreldra og umsjónarkennara á fund.  Á árgangafundum munu deildarstjórar einnig fara yfir lestrarstöðu nemenda.  

Heimalestur og orðavinna - Hæfniviðmið

1. - 4. bekkur

5. - 7. bekkur

8. - 10. bekkur

 

Vinnuferli ef heimalestri er ekki sinnt:

 

1. skref: Kennari hefur samband við foreldra og ræðir málið.

2. skref: Kennari vísar málinu til deildarstjóra ef engin breyting er á sem boðar foreldra og umsjónarkennara á fund.


Lestrarþjálfun - kennsluaðferðir skólans

Lestrarþjálfunin hverju sinni er fjölbreytt og tekur á sig ólíkar myndir eftir því hvar í lestrarferlinu nemandi er staddur og hvað hann þarf að þjálfa. Gert er ráð fyrir að markviss lestrarþjálfun fari fram í öllum árgöngum. Lágafellsskóli leggur mikla áherslu á að nemendur á yngsta stigi nái góðum tökum á lesfimi. Besta leiðin til að þjálfa lesfimi er endurtekinn lestur en á þann hátt lærast orðmyndirnar.  Þegar orðmynd hefur birst barni oft hættir það smátt og smátt að hljóða sig í gegnum orðin og fer að lesa það á sjálfvirkan hátt.

 

Hljóðaaðferðin

 

PALS lestrarþjálfun

 

Framsögn - upplestrarkeppni

Lestrarmenning skólans

Afstaða til læsis endurspeglast í lestrarmenningu samfélags og eitt mikilvægasta verkefni skóla er að skapa lestrarmenningu sem ýtir undir jákvætt viðhorf til lestrar. Þetta gerum við t.d. með eftirfarandi verkefnum:

Yndislestur

Í yndislestri lesa nemendur bækur að eigin vali, oft sömu bók og þeir eru að lesa í heimalestri. Lesið er í hljóði í u.þ.b. 15 mínútur í senn. Þetta er róleg stund og markmiðið er að nemendur upplifi að það er notalegt að lesa og þjálfi lestrarfærnina. Kennarinn aðstoðar nemendur við val á bókum ef þörf er á og nýtir tímann einnig sjálfur til lestrar og sýnir þannig gott fordæmi.

Val á lestrarbókum er mikilvægt til að vekja áhuga barnsins á lestrinum.  Við upphaf lestrarnámsins þjálfa nemendur lestur sinn með lestri á lestrarbókum sem kennarinn úthlutar þeim. Þegar líður á fá nemendur að fara á skólabókasafnið til að velja sér bækur. Kennarinn og bókasafnsfræðingur skólans er þeim innan handar í því vali. Einnig er mikilvægt að foreldrar hjálpi börnum sínum við valið, t.d. með því að hjálpa þeim að finna bækur sem til eru heima eða með því að fara með þeim á almenningsbókasafn. 

Nestislestur

Nestislestur fer fram í ávaxtabita hjá 1.-7. bekk. Nestislestur er ekki bara notalegur því við lestur kennarans lifnar frásögnin við og oftar en ekki fá nemendur áhuga á að lesa fleiri bækur um sömu sögupersónur eða eftir sama höfund. Nestislestur er því mjög mikilvægur liður í því að efla lestrarmenningu skólans. 

Lestrarátak/lestrarsprettir

Á hverju skólaári eru tveir lestrarsprettir (lestrarátak), einn á hvorri önn. Hver sprettur stendur yfir í um 2-3 vikur og hefst fyrri spretturinn í október - nóvember og sá seinni í apríl - maí. Sprettunum verður sköpuð skemmtileg umgjörð, allt eftir aldri og þroska nemenda.

 

Mat á stöðu nemenda- skimanir og próf

Stór hluti af lestrarstefnu skólans eru skimanir og próf (sjá fylgiskjal 1). Tilgangur þeirra er að fá upplýsingar um stöðu nemenda. Markmiðið er að nota niðurstöður skimana og prófa markvisst til að bæta kennslu og efla nemendur.

 Kennarar og deildastjórar þurfa í sameiningu að vinna að úrræðum sem hægt er að grípa til þegar niðurstöður liggja fyrir. Það er á ábyrgð þeirra að mæta þörfum nemenda sem sýna slaka frammistöðu sem og þeirra nemenda sem sýna mjög góða frammistöðu. Mikilvægt er að efla alla nemendur með krefjandi verkefnum.

Hljóm 2

Hljóm-2 er próf/greiningartæki í leikjaformi sem kannar hljóðkerfisvitund elstu barnanna í leikskólanum en lengi hefur verið vitað um fylgni á milli lélegrar hljóðkerfisvitundar og lestrarerfiðleika og svo í kjölfarið á þeim stafsetningarerfiðleika.  Með hljóðkerfisvitund er átt við að barnið geri sér grein fyrir að tungumál hefur ákveðið form og það skiptir ekki bara máli hvað er sagt, heldur líka hvernig það er sagt. Talað orð hefur ákveðna hljóðfræðilega uppbyggingu. Undirstaðan undir góða hljóðkerfisvitund er skipulagður leikur með rím og leikur að orðum. Í  Hljóm-2 eru lögð fyrir sjö prófatriði sem öll gefa vísbendingar um ákveðna áhættu eða ekki og skiptast í eftirfarandi flokka: Rím, samstöfur, samsett orð, hljóðgreining, margræð orð, orðhlutaeyðing og hljóðtenging.

Leið til læsis

Leið til læsis er yfirgripsmikið stuðningskerfi í lestrarkennslu ætlað lestrarkennurum frá yngsta stigi grunnskólans og upp á unglingastig. Markmið þessarar nálgunar er að gefa kennurum kost á að fylgjast með lestrarþróun hvers nemanda frá upphafi lestrarnáms og út grunnskólagöngu. Í kjölfarið gefur stuðningskerfið leiðbeiningar um hvort þörf sé á að endurskoða markmið og leiðir og laga kennsluna betur að þörfum hvers nemenda. Leið til læsis hefst með skimunarprófi í 1. bekk þar sem kannaður er undirbúningur nemendahópsins í læsisþáttum strax við upphaf grunnskólagöngu.

Lesferill

Lesferill er staðlað hraðlestrarpróf frá Menntamálastofnun og er ætlað að meta grunnþætti læsis s.s. lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Lesferill er hugsað sem verkfæri kennarans til að mæla lestrarstöðu nemandans. Nemandi og kennari setja sér markmið eftir hvert lestrarpróf til að þeir viti hvert þeir stefna í lesfimi, hraða og nákvæmni. Tilgangurinn með prófunum er að veita leiðbeinandi upplýsingar um lestrarstöðuna og meta hvort að settum markmiðum hafi verið náð. Til  að einfalda utanumhald hefur verið útbúið skema fyrir hvern árgang þar sem matsþættir, matstæki og tímasetningar hafa verið settar niður.  

LOGOS lesskimun

Komi upp rökstuddur grunur um lestrarerfiðleika hjá nemanda er honum vísað í greiningarferli hjá sérkennara. Til að greina lestrarerfiðleika nemenda nota sérkennarar greiningarforritið LOGOS. 

 LOGOS er tölvutækt greiningarpróf sem er grundvallað á nýlegum rannsóknum á lestrarfærni nemenda og er staðlað fyrir íslenska nemendur. LOGOS hefur tvo prófaflokka; fyrri flokkurinn er ætlaður nemendum í 3.- 5. bekk og sá síðari 6. – 10. bekk og fullorðnum. Innan hvers flokks eru margir prófþættir og er meðal annars prófaður lesskilningur, leshraði, hlustun og skilningur, hugtakaskilningur, umkóðunarfærni og undirþættir umkóðunarferlisins. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að lestrarerfiðleikar séu greindir sem fyrst svo grípa megi tímanlega inn í með viðeigandi hætti. 

 Í Lágafellsskóla fer LOGOS skimun fram fyrir nemendur í 4. og 10. bekk.  Ef niðurstöður skimunar gefa ástæðu til, er prófið lagt fyrir nemanda í heild sinni. Niðurstöður prófanna í LOGOS eru settar fram á myndrænan hátt ásamt töflum þar sem hægt er að bera saman niðurstöðu nemandans við jafnaldra. Sérkennari greinir hvern þátt fyrir sig á ítarlegan hátt og útskýrir á skilafundi með foreldrum.

Læsi - lestrarskimun

Læsi - lestrarskimun er ætlað að athuga lestrarhæfni nemenda í 1. og 2. bekk. Annars vegar til að finna nemendur sem kunna að vera í áhættuhópi vegna lestarerfiðleika. Hins vegar að veita kennurum upplýsingar til að skipuleggja kennslu nemenda. Prófið samanstendur af fimm heftum, þrjú eru fyrir 1. bekk og tvö fyrir 2. bekk. Prófþættir 1. bekkjar prófsins (alls 3 hefti) taka til hljóðkerfisvitundar, orðaforða, stafaþekkingar, hlustunar- og lesskilnings, viðhorfs til lestrar og ritmálsvitundar. Prófþættirnir ná því til þeirra sviða sem þykja gefa vísbendingar um seinni tíma frammistöðu í lestri. Prófþættir 2. bekkjar prófsins (alls 2 hefti) taka til hljóðkerfisvitundar, orðaforða, stafaþekkingar, hlustunar- og lesskilnings, umskráningar og viðhorfs til lestrar og ritmálsvitundar. 

Orðarún

Orðarún er stöðluð lesskilningspróf sem lögð eru fyrir nemendur í 3.-8. bekk tvisvar á vetri. Kannað er hversu vel nemendur skilja meginefni textans og átti sig á staðreyndum. Nemendur þurfa líka að geta lesið á milli línanna því sumar spurningarnar eru þannig að þeir þurfa að draga ályktanir um eitthvað sem stendur ekki beint í textanum. Einnig er spurt um merkingu orða og orðasambanda. Niðurstöður prófanna flokka árangur nemenda í fjóra flokka: Gott, meðal, slakt og mjög slakt. 

 

 

 

 

 

 

Fyrirkomulag lestrarstuðnings

Í hverjum árgangi eru nemendur sem sækist lestrarnám hægar en öðrum. Taka ber til tillit til þessara nemenda og finna þeim stuðningsúrræði eftir þörfum. 

Mikilvægt er að umsjónarkennari leggi línurnar með foreldrum og kennara/sérkennara með hvaða hætti hægt sé að takast á við vandann en nauðsynlegt er að kennarar og foreldrar vinni saman að bættum árangri. 

Ef nemandi mælist undir viðmiðum í lesfimi gefst kostur á að sækja um lesfimiþjálfun í gegnum stoðþjónustu skólans. Foreldrar geta fengið leiðsögn hjá kennara/sérkennara og allir vinna saman að settu markmiði sem lagt er af stað með í upphafi. Nemendum og foreldrum er gert skylt að fylgja eftir viðbótarheimavinnu í lestri eftir því sem við á. 

 

Yfirlit yfir skimanir og próf

 

Lesfimiviðmið MMS

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira