logo
  • Samvera -
  • Samvinna -
  • Samkennd

Einelti

Aðgerðir gegn einelti

Einelti er ekki undir neinum kringumstæðum liðið í Lágafellsskóla!

Hvað er einelti?

  • Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einstaklingi sem á erfitt með að verjast.
  • Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis.
  • Einelti fer oft fram þar sem enginn sér. Sá sem lagður er í einelti vill oft ekki segja frá því sem gerist svo hann hljóti ekki verra af. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis. 

Stríðni, átök og einstakur ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis.

Ofbeldi er vísvitandi meiðandi hegðun þar sem einstaklingur eða hópur beitir valdi til að meiða eða niðurlægja aðra. Einstakt ofbeldisatvik getur verið merki um að sá sem fyrir ofbeldinu verður hafi verið lagður í einelti.


Einelti er ekki undir neinum kringumstæðum liðið í Lágafellsskóla! 

  • Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast áeinstaklingi sem á erfitt með að verjast. 
  • Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis.
  • Einelti fer oft fram þar sem enginn sér. Sá sem lagður er í einelti vill oft ekki segja frá því sem gerist svo hann hljóti ekki verra af. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis. 

Ýmsar birtingarmyndir eineltis

  • Líkamlegt: Barsmíðar, spörk, hrindingar
  • Munnlegt: Uppnefni, niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni
  • Skriflegt/rafrænt: Neikvæð tölvu- og/eða símasamskipti, krot, bréfasendingar, myndbirtingar 
  • Óbeint: Baktal, útskúfun, útilokun úr félagahópi
  • Efnislegt: Eignum stolið, þær eyðilagðar
  • Andlegt: Þvingun til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd og sjálfsvirðingu

Forvarnir gegn einelti

Til að fyrirbyggja einelti þarf samstillt átak nemenda, forráðamanna og starfsmanna skólans. Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræður um einelti og afleiðingar þess eru nauðsynlegar. Allir aðilar skólasamfélagsins þurfa að deila ábyrgð, sýna virðingu og láta sig líðan annarra varða. 

Helstu forvarnir:

  • Skólinn setur viðmið í samskiptum í því skyni að starfsmenn, nemendur og forráðamenn vinni út frá sömu gildum að þroskun jákvæðra samskipta og  góðum skólabrag.  Þar er einkum litið til þriggja þátta:
    - Einkennisorða Lágafellsskóla;  samvera, samvinna og samkennd
    - Einkennisorða Mosfellsbæjar;  virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja
    - Uppbyggingarstefnunnar (Restitution/Diane Gossen)
  • Einnig skal bent á skólareglur Lágafellsskóla.
  • Hver bekkjardeild gerir með sér sáttmála um samskipta- og vinnureglur í anda Uppbyggingarstefnunnar og heldur bekkjarfundi um líðan, samskipti og hegðun eftir atvikum.
  • Efling sjálfstrausts, samkenndar, tillitsemi, virðingar og umburðarlyndis m.a. í gegnum  hópavinnu í ólíkum námsgreinum, félagsstarf og lífsleiknikennslu.
  • Árleg kynning skólastjóra á eineltisáætlun skólans að hausti fyrir nemendur og forráðamenn.
  • Eineltisáætlun  er aðgengileg á vef skólans og þar er hægt að tilkynna einelti.
  • Allir starfsmenn skólans nota þau tækifæri sem gefast til að ræða og leiðbeina um mikilvægi góðra samskipta.
  • Eineltisáætlun er yfirfarin og endurskoðuð árlega á starfsmannafundi.
  • Skólapúlsinn er nýttur til að kanna stöðu eineltismála árlega, bæði fyrir nemendur og foreldra.
  • Niðurstöður úr Skólapúlsinum og nýttar í vinnu gegn einelti/við endurmat áætlunar.
  • Eineltisteymi kemur saman að hausti og gerir áætlun um forvarnir vetrarins. Teymið fundar eftir atvikum yfir skólaárið.
  • Skólinn nýtir hinn árlega Dag gegn einelti (8. nóvember) til að vekja athygli á mikilvægi góðra samskipta með það að markmiði að sporna gegn einelti.
  • Skólinn stuðlar markvisst að samvinnu heimilis og skóla með kynningum, fræðslu, fréttabréfum o.fl. Umsjónarkennarar og bekkjarfulltrúar hvetja foreldrasamfélagið til að setja sér reglur varðandi afmælisboð og aðrar samkomur.
  • Eineltisteymi er þátttakandi fyrir hönd skólans í samstarfi menntastofnanna bæjarins í málaflokknum. 

Hugsanlegar vísbendingar um einelti

Tilfinningalegar

  • breytingar á skapi
  • tíður grátur, viðkvæmni
  • svefntruflanir, martraðir
  • breyttar matarvenjur, lystarleysi - ofát
  • lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði
  • depurð, þunglyndiseinkenni, sjálfsvígshugsanir

 

Líkamlegar

  • líkamlegar kvartanir t.d. höfuðverkur, magaverkur
  • kvíðaeinkenni t.d. nagar neglur, stamar, ýmis konar kækir
  • líkamlegir áverkar s.s. skrámur og marblettir sem barnið getur ekki útskýrt
  • rifin föt og/eða skemmdar eigur

 

Félagslegar

  • barnið virðist einangrað og einmana
  • fer ekki í og fær ekki heimsóknir
  • barnið á fáa eða enga vini og það vill ekki taka þátt í félagsstarfi

 

Hegðun

  • óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst
  • barnið neitar að segja frá hvað amar að
  • árásargirni og erfið hegðun

 

Í skóla

  • hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið
  • leggur fyrr eða seinna af stað í skólann en venjulega
  • mætir iðulega of seint eða byrjar að skrópa
  • forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi og sund
  • hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, einbeitingarörðugleikar
  • einangrar sig frá skólafélögum
  • forðast að fara í frímínútur

 

Á heimili

  • barnið neitar að fara í skólann
  • dregur sig í hlé
  • biður um auka vasapening
  • týnir peningum og/eða öðrum eigum
  • neitar að leika sér úti eftir skóla
  • byrjar að leggja önnur börn eða systkini í einelti
  • reynir að fá foreldra sína til að tala við kennarann, skólafélagana eða aðra foreldra
  • verður niðurdregið eða órólegt eftir frí 

 

Verði foreldrar eða starfsmenn varir við einhver ofangreindra einkenna eða annarra sem benda til að barninu líði illa er mikilvægt að kanna málið. Allir sem hafa vitneskju um hvers konar líkamlegt eða andlegt ofbeldi meðal nemenda ber að tilkynna það til umsjónarkennara.

Meðferð eineltismála í Lágafellsskóla

Nauðsynlegt er að vitneskja um einelti berist til umsjónarkennara, skólastjórnenda eða náms- og starfsráðgjafa. Grun um einelti ber að tilkynna með formlegum hætti á eyðublaði sem finna má á vef Lágafellsskóla. Undirritaða tilkynningu skal senda rafrænt eða afhenda stjórnendum.  Ef grunur leikur á eða staðfesting liggur fyrir að einelti eigi sér stað er það skýr stefna Lágafellsskóla að tekið sé á málinu strax. Eineltismál eru mismunandi og fer vinnulag í hverju máli eftir eðli þess.

Almennt skal vinnulag þó vera sem hér segir (sjá mynd). 

Vitneskja berst um einelti til starfsfólks skólans frá nemenda, foreldrum/forráðamönnum eða öðru starfsfólki. Ávallt skal gæta trúnaðar við meðferð eineltismála.

Málinu vísað til umsjónarkennara.

Umsjónarkennari greinir málið samkvæmt skilgreiningu skólans á einelti. Hann leitar eftir upplýsingum frá öðru starfsfólki skólans og foreldrum/forráðamönnum; hvar, hver, hvenær, hvernig, hverjir áttu hlut að máli og skráir það hjá sér á ferilsskráningarblað.

Ef umsjónarkennari metur að um einelti sé að ræða gerir umsjónakennari foreldrum/forráðamönnum gerenda og þolenda grein fyrir stöðunni. Farið er yfir:

  • hver tilboð skólans eru til að aðstoða þolanda og geranda.
  • hvað foreldrar/forráðamenn geta gert til aðstoðar barni sínu og skólanum.
  • samstarf foreldra/forráðamanna og umsjónakennara um eftirfylgd málsins.

Umsjónarkennari metur hvaða vinnuferli hentar best miðað við aðstæður hverju sinni. Algengt vinnuferli er:

  • foreldrum/forráðamönnum gerenda og þolenda er gerð grein fyrir málavöxtum og áætlun skólans kynnt fyrir þeim.
  • allir nemendur bekkjar/hóps teknir í stutt einkaviðtal.
  • gerendur eru teknir í einkaviðtöl og viðtalinu fylgt eftir.
  • stuðningsviðtöl við þolandann.
  • stuðningsviðtöl við gerendur.
  • eftirlit er aukið þar sem einelti hefur átt sér stað.

Ef umsjónarkennari óskar aðstoðar eða ráða frá einelstisteymi biður hann um fund með teyminu og kemur með afrit af ferliskráningarblaði á fundinn.

Ef aðgerðir bera ekki árangur að mati umsjónarkennara og eineltisteymis er málinu vísað til nemendaverndarráðs.

Allt ferlið er skráð af umsjónarkennara á sérstakt skráningarblað og öll gögn varðandi hvert mál geymd hjá námsráðgjafa. Foreldrar/forráðamenn eru einnig hvattir til að skrá hjá sér málsatvik.

Við Lágafellsskóla starfar eineltisteymi sem vinnur að sameiginlegri lausn og fyrirbyggjandi aðgerðum í eineltismálum.

Í eineltisteymi starfa:

  • Lísa Greipsson, skólastjóri
  • Eygerður Helgadóttir, Náms- og starfsráðgjafi
  • Guðrún I. Stefánsdóttir, deildarstjóri stoðþjónustu
  • Linda Hersteinsdóttir, umsjónarkennari á unglingastigi
  • Arnar Hauksson, umsjónarkennari á miðstigi

Tilkynna einelti

Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einstaklingi sem á erfitt með að verjast. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis. Einelti fer oft fram þar sem enginn sér. Sá sem er lagður í einelti vill oft ekki segja frá því sem gerist svo hann hljóti ekki verra af. Þess vegna er áríðandi að allir þekki einkenni eineltis.

Senda má tilkynningar um einelti á tölvupóstinn "lagafell-eineltisteymi (hjá) mosmennt.is"

 

 

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira