logo
  • Samvera -
  • Samvinna -
  • Samkennd

Viðbragðsáætlun - Heimsfaraldur veirusýkinga

Í apríl 2009 greindist nýtt afbrigði inflúensu í heiminum. Í samræmi við tilmæli sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sem unnið hafa landsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu, hófst vinna við gerð svæðisáætlana um allt land um viðbrögð vegna inflúensufaraldurs. Svæðisáætlun höfuðborgarsvæðisins nær til Mosfellsbæjar, en Reykjavíkurborg og einstök svið hennar hafa jafnframt unnið viðbragðsáætlanir vegna eigin starfsemi.

Í þessari áætlun eru teknir saman helstu þættir úr viðbragðsáætlunum einstakra sviða sveitarfélagsins og fjallað um málefni sveitarfélagsins í heild.

Við gerð þessarar viðbragðsáætlunar var unnið skv. samræmdu sniðmáti fyrir höfuðborgarsvæðið undir leiðsögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS). Byggt var á sniðmáti að viðbragðsáætlun fyrir ráðuneyti, sem gert var í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti sóttvarnalæknis, sem og gátlista fyrir órofinn rekstur fyrirtækja frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og SHS. Framkvæmdaáætlanir einstakra sviða og deilda voru byggðar á samræmdu sniðmáti fyrir höfuðborgarsvæðið sem aftur tók mið af sniðmáti landsáætlunar vegna sorphirðu.

Markmið viðbragðsáætlunarinnar eru að tryggja skipulögð og samræmd viðbrögð í inflúensufaraldri, að draga úr smithættu á starfsstöðvum sveitarfélagsins, tryggja rekstur mikilvægrar þjónustu þrátt fyrir auknar fjarvistir í inflúensufaraldri og skilgreina þá neyðarþjónustu sem í öllum tilvikum verður að veita. Í febrúar 2020 lýsti ríkislögreglustjóri yfir hættustigi almannavarna vegna nýrrar kórónaveiru (COVID-19).

Viðbragðsáætlun þessi var uppfærð við það tilefni og útfærð þannig að hún tæki samkvæmt orðanna hljóðan til allra heimsfaraldra veirusýkinga.

Ábyrgð á viðbragðsáætlun fyrir Mosfellsbæ ber bæjarstjóri og skal áætlunin lögð fram í bæjarráði til samþykktar.

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira