logo
  • Samvera -
  • Samvinna -
  • Samkennd

Skólareglur

  • Við komum fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.
  • Við förum eftir fyrirmælum kennara og annarra starfsmanna skólans.
  • Við göngum vel um umhverfið og förum vel með eigur skólans og annarra.
  • Við mætum stundvíslega og  vinnum alltaf eins vel og við getum.
  • Við tileinkum okkur heilbrigðar lífsvenjur.

NÝTT Skólasóknarreglur fyrir Mosfellsbæ, smella hér

Nemandi í 1. - 7. bekk sem af einhverjum ástæðum þarf að vera inni í frímínútum dvelur í stofu 253-254 í umsjón starfsmanna skólans.

Nemendur unglingadeildar, í 8. - 10. bekk, hafa val um hvort þeir eru inni eða úti.

Þurfi nemandi að vera inni í frímínútum skal skila beiðni frá foreldri/forráðamanni þar sem ástæða inniverunnar er tilgreind. Heimilt er að vera inni tvo daga eftir veikindi. Þurfi nemandi að vera lengur inni vegna langvarandi veikinda eða meiðsla skal skila læknisvottorði.

Hamli veður útivist eru nemendur inni undir umsjón starfsmanna. Mikilvægt er að nemendur séu klæddir í samræmi við veður og hafi með sér aukaföt að heiman ef þurfa þykir.



Frímínútur í 1. - 7. bekk eru tvisvar yfir daginn, kl. 9:40-10:00 eða 9:30-9:50 og kl. 11:20-11:40 eða kl. 11:40-12:00.

Frímínútur í 8. - 10. bekk eru þrisvar yfir daginn, kl. 9:35-9:55, 12:05-12:35 og 13:15-13:25

Kennarar, stuðningsfulltrúar og skólaliðar sinna gæslu í frímínútum.

Farsímanotkun er óheimil í kennslustundum, nema  í námslegum tilgangi og er þá ákvörðun kennara.

Farsímanotkun er óheimil í  búningsklefum íþróttahúsa og íþróttasal.

Mynd- og hljóðupptökur eru  ÁVALLT óheimilar nema með sérstöku samþykki viðkomandi.

Farsímanotkun nemenda í 1.-7.bekk er óheimil  á göngum, í matsal og á útisvæði .

Litið er svo á að farsímar yngstu nemenda skólans séu fyrst og fremst öryggistæki sem notist eftir skóla.

Farsímar eru ávallt á ábyrgð eigenda sinna.

Reglur á skólalóð

Hjólabrettasvæði

Hjólabretti og hlaupahjól eru leyfð og skulu  nemendur vera með hjálm. Óheimilt er að renna sér að og frá svæðinu á brettum og hlaupahjólum, halda skal á þeim yfir lóðina

Önnur svæði

Reiðhjól, hlaupahjól, hjólabretti og línuskautar óheimil á skólalóð frá kl. 08:00 – 17:00 meðan skólastarf stendur yfir.

Skólahreystibraut

Notendur skólahreystibrautar framkvæma þær æfingar sem brautin er gerð fyrir. 

Þeir sem ætla að fara í gegnum alla brautina, hvort sem þeir eru í keppni eða ekki, hafa forgang.

Óheimilt er að klifra upp á grind Skólahreystibrautar.

Aðeins sá árgangur sem skráður er á skólahreystibraut hverju sinni nýtir brautina.

Fótboltavellir

Á fótboltavöllum gilda almennar knattspyrnureglur. Aðeins sá árgangur sem skráður er með völlinn hverju sinni nýtir hann.

Snjóboltasvæði

Þegar snjór er á skólalóð er hjólabrettasvæðið ætlað fyrir þá sem vilja stunda snjóboltakast.  Eingöngu þeir sem vilja taka þátt mæta á svæðið.  Ekki má kasta út fyrir svæðið.

Um nokkurt skeið hefur verið rædd nauðsyn þess að móta samræmdar viðmiðunarreglur um  ástundun fyrir nemendur í grunnskólum Mosfellsbæjar. Ástæðan er sú að talverð umræða hefur verið  meðal skólafólks þess efnis að leyfum hjá grunnskólanemendum hafi fjölgað og þar með fari skólasókn  æ fleiri nemenda dvínandi yfir skólaárið. Niðurstöður könnunar Velferðarvaktarinnar um skólasókn  og skólaforðun sem birt var 12. mars 2019 staðfestir aukna fjarveru nemenda frá skóla. Því þykir full ástæða til að bregðast við þessari þróun.


 Reglum þessum er ætlað að samræma verkferla í grunnskólum bæjarins og skapa með því  nemendum, foreldrum og skólasamfélaginu öryggi og gegnsæi ásamt því að auðvelda aðgengi  starfsfólks að upplýsingum um verklag.


 Við undirbúning að gerð þessara reglna hefur verið horft til annarra sveitarfélaga sem þegar hafa sett  sér samræmdar reglur fyrir grunnskóla sinna sveitarfélaga m.a. Akureyrar, Árborgar, Hafnarfjarðar og  Reykjavíkur.


 Lagt er til að frá og með hausti 2020 verði unnið samkvæmt reglunum í grunnskólum Mosfellsbæjar  að undangenginni kynningu fyrir nemendur, foreldra og starfsmenn. Í lok skólaárs 2020 - 2021 verði  metið hvort einhverra breytinga er þörf.

Ætlunin er að skjalið verði aðgengilegt á heimasíðum skólanna.
Reglurnar eru unnar af sérfræðingum fræðslu- og frístundasviðs í samstarfi við stjórnendur
grunnskóla Mosfellsbæjar.

 

Reglurnar í heild sinni


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira