logo
  • Samvera -
  • Samvinna -
  • Samkennd

Starfsáætlun

Samkvæmt lögum um leik- og grunnskóla skulu skólar árlega setja fram starfsáætlun sína. Frá 2008 hafa stofnanir Mosfellsbæjar notað samræmt form við framsetningu starfsáætlana. Form þetta hefur þróast nokkuð á liðnum árum en í ljós hefur komið að það hefur ekki dugað til að mæta þeim lögum sem um starfsáætlanir grunnskóla gilda nema með ítarlegum fylgiskjölum. Af þeim sökum sammæltust skólastjórar grunnskóla Mosfellsbæjar um að finna form sem betur uppfyllti þær kröfur sem nú eru gerðar til starfsáætlana skóla. Jafnframt skyldi reynt að halda í hluta þeirrar vinnu sem lögð hefur verið í eldri gerð starfsáætlana enda hefur það form gefist vel sem stjórntæki í skólunum.

Vigfús Hallgrímsson á Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar var fenginn til að kynna starfsáætlunarform sem hann hefur hannað fyrir Hafnarfjarðarbæ, út frá nýrri Aðalnámskrá grunnskóla og þeim lögum og reglugerðum sem um grunnskóla gilda. Sú ákvörðun var tekin að grunnskólar í Mosfellsbæ myndu nýta þessa vinnu sem grunn að vinnu við starfsáætlanagerð grunnskóla bæjarins, með góðfúslegu leyfi Vigfúsar.

Í þessari starfsáætlun er leitast við að gera áætlun til þriggja ára, með markmiðum sem unnið skal að öll árin. Settir eru fyrirfram ákveðnir þættir sem endurskoðaðir skulu á hverju ári og endurmatsáætlun fylgir fyrir öll þrjú skólaárin. Áætlunin skal taka mið af skólaári en ekki fjárhagsári eins og áður hefur verið gert. Starfsáætlunin er veigamikill þáttur í skólanámskrá Lágafellsskóla. 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira