logo
  • Samvera -
  • Samvinna -
  • Samkennd

Skipulag skólastarfsins 3. - 17. nóv.

02/11/2020

Sælir kæru foreldrar!

Samkvæmt nýrri reglugerð um skólastarf höfum við skipulagt starfið út frá nýjum forsendum á meðan reglugerðin er í gildi eða til og með 17.nóvember. 

Skipulag miðast við að aldrei séu fleiri en 50 nemendur (1.-4.bekkur og leikskóli) eða 25 nemendur í hópi (5.-10.bekkur), hópar blandist ekki.  Teymi hafa verið skipuð fyrir hvern árgang sem sinnir kennslu þess árgangs alfarið og kemur ekki að öðrum hópum.

Ekki er grímuskylda fyrir nemendur í 1. – 4. bekk en grímuskylda er í gildi fyrir alla nemendur í 5. – 10. bekk sem og allt starfsfólk. Nemendur þurfa að koma með sínar grímur fyrst um sinn, gott að huga að fjölnota grímum.

Viðvera nemenda verður sem hér segir:

  • 1. - 4.bekkur frá 8:10 – 13:20 og frístund opin fyrir þá sem þar eru skráðir

            1. bekkur gengur inn um inngang frá bílastæði

            2. bekkur gengur inn um aðalinngang, þar sem þau koma venjulega

  • 5.-7.bekkur frá 8:30 – 11:50
  • 8.-10.bekkur frá 9:00 – 12:20

            3. – 10. bekkir koma inn um sína venjulega innganga.

Ávaxtabiti er í boði fyrir þá sem þar eru skráðir, hádegismatur er í boði fyrir nemendur í 1. – 4. bekk.

Við viljum hvetja foreldra nemenda í 5.-10.bekk að senda nemendur með auka nesti þessa daga.

Ekki verða hefðbundnar frímínútur hjá 5. – 7. bekk en útivera nýtt eins og hægt er án þess að hópar mætist í anddyri eða á skólalóð.

Mælst er til þess að allir nemendur skólans komi klæddir til útiveru.

Þar sem hefðbundin list- og verkgreinakennsla fellur niður sem og íþróttir og sundkennsla þá þurfa nemendur ekki að koma með íþrótta- eða sundföt.

Frístund er í boði fyrir nemendur í 1.-4.bekk frá því að skóladegi þeirra lýkur og fram til 16.30 fyrir þá sem þar eru skráðir.  Frístund fer fram í 1. og 2. bekkjar stofunum fyrir nemendur Höfðabergs. Frístund í Lágafellsskóla fer fram í sérdeildarrými, frístundarými og palli á 2 hæð (fyrir framan 4. bekkjar stofur). Nemendur í Frístund eru í sömu sóttvarnarhólfum og þau eru í skólanum. Útivera verður nýtt eins og kostur er án þess að nemendur úr mismunandi hólfum mætist í anddyri eða á skólalóð.

Tilmæli til foreldra:

  • Foreldrar gæti fyllsta hreinlætis hvað varðar fatnað barna.  Þetta á einnig við um aðrar eigur nemenda.
  • Nemendur komi ekki með hluti með sér að heiman í skólann annað en nauðsynlegt er til náms. 
  • Mikilvægt er að þeir nemendur sem koma með ritföng að heiman t.d. nemendur í unglingadeild séu vel búnir ritföngum þar sem ekki er ætlast til að lánað sé á milli nemenda.
  • Hafi nemendur flensueinkenni s.s. kvef verði foreldrar beðnir um að halda þeim heima.
  • Foreldrar komi ekki inn í skólann nema brýna nauðsyn beri til og hafi þá samband áður og komi með grímu.  Kennarar geta afhent foreldrum gögn ef svo ber undir.

Stjórnendur skólans óska eftir góðri samvinnu við foreldra svo þetta fyrirkomulag gangi sem allra best.  Ef einhverjar spurningar vakna hafið þá endilega samband við stjórnendur og/eða umsjónarkennara.

Lísa Greipsson

Skólastjóri

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira