logo
  • Samvera -
  • Samvinna -
  • Samkennd

Skólastarf hefst skv. stundaskrá mán. 4. maí

30/04/2020

Kæru foreldrar/forráðamenn nemenda í Lágafellsskóla

Nú erum við loksins að sjá fyrir endann á skertu skólastarfi sem staðið hefur frá 16. mars. Frá og með mánudeginum 4.maí n.k. mun allt skólastarf falla í eðlilegar horfur og kennt verður skv. stundatöflu frá og með þeim degi. Allir nemendur mæta því kl. 8:10 á mánudaginn og nota þann inngang sem þeir voru með fyrr í vetur.

 

List- og verkgreinarrúllur hjá tveimur síðustu af sex hópum árgangsins í 3. – 8.bekk skerðast og fær hvor hópur 3 vikur í stað 6, en með því mót fá allir nemendur að fara í allar námsgreinar í stað þess að missa úr eina námsgrein sem gæti verið uppáhaldsgrein viðkomandi. Á svipaðan hátt skerðist lengd hópanna á Höfðabergi en 9. og 10. bekkur heldur áfram sömu námgrein og þau voru í.

 

Íþrótta- og sundtímar verða skv. stundatöflu nemenda og eru íþróttahúsin/sundlaugar í Mosfellsbæ einungis opin fyrir nemendur skólanna.

 

Við viljum biðja alla að hafa þessi atriði i huga:

 

  • Starfsfólk og börn með kvef- eða flensueinkenni komi ekki í skóla- eða frístundastarf.
  • Ef brýnar ástæður eru til geta foreldrar sótt undanþágu fyrir börn sín frá skólasókn í grunnskóla. Slíkar beiðnir skulu vera skriflegar á þar til gerðum eyðublöðum og þar staðfesta foreldrar að þeir beri fulla ábyrgð á námi nemenda á meðan leyfi varir.Leyfisbeiðnir eru sendar skólastjóra og boðar hann foreldra á fund áður hann tekur ákvörðun um samþykki eða synjun. Ef leyfi er samþykkt er haft samband við nemanda og foreldra 1-2 sinnum í viku til að fylgjast með líðan og framgangi náms.

     

  • Áfram er gert ráð fyrir viðbótarþrifum og sótthreinsun í skóla- og frístundastarfi.
  • Áfram skal gætt hreinlætis í allri umgengni um húsnæði og í samskiptum manna á milli.
  • Áfram verður gætt að smitvörnum varðandi leikföng í leikskóla og frístundastarfi.
  • Fullorðnir skulu halda 2 metra fjarlægð sín á milli eins og aðstæður leyfa og ekki er heimilt að fleiri en 50 fullorðnir komi saman í sama rými.
  • Ekki er talið æskilegt á þessum tímapunkti að foreldrar komi inn í skólanna og því fellur m.a. vorhátíð niður, Stóra upplestrarkeppnin frestast fram á haust, Litla upplestrarkeppnin verður með öðru sniði en áður og einnig útskriftir nemenda og verður það kynnt nánar síðar.
  • Rúturnar byrja að ganga aftur frá og með 4. maí. Þær verða á sama tíma og þær voru áður, alla daga vikunnar.

 

Með kærri kveðju og hlökkum til að sjá alla nemendur aftur eftir helgi

Stjórnendur og starfsmenn í Lágafellsskóla

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira